leita

Fyrsta bílferðin um Fjallabaksveginn 1946

Fjallabaksleið nyrðri

Fjallabaksleið nyrðri er ein af fjölförnustu fjallvegum á Íslandi. Hún er aðeins fær yfir sumarið og aðeins á jeppa því árnar eru óbrúaðar. Fyrstu öruggu heimildirnar um að nyrðri leiðin hafi verið farin eru frá því 1839 en þá fór Björn Gunnlaugsson, kennari og landmælingamaður þessa leið en Björn var þekktur fyrir landmælingar sínar og kortlagninu. Rúm sjötíu ár eru síðan mönnum datt í hug að fara nyrðri fjallabaksleiðina á bíl og var sú frásögn vandlega skráð. Fyrst var farin ein ferð í Landmannalaugar í júní og síðan var farið alla leið austur í Skaftártungu í ágúst 1946.

Frumkvöðullinn Guðmundur Sveinsson segir svo frá: 

Nú leið að lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og þá var farið að selja stríðsgóssið. Sölunefndin varð til og þar réðst til starfa góður kunningi Guðmundar, Bergur Lárusson. Þarna var hægt að fá tæki til ferðalaga og Guðmundur tjáði Bergi að sig vantaði bíl með drifi á öllum hjólum og með spili að auki. “Nú af hverju með spili?” “Það er hugmyndin að reyna við Fjallabaksveginn.” “Það ættu að verða einhver ráð með það, en ég ætla að fá mér annan og koma líka,” sagði Bergur. [1]

Ekki stóð á því að Guðmundur fengi bílinn og nú tók hann að undirbúa nýjan leiðangur á þessar slóðir. Hann mundi vel Kötlugosið 1918 og fannst tilvalið að kanna hvort ekki væri hægt að finna þarna færa leið ef Katla tæki upp á því að loka öllum leiðum sunnan jökla.”[2]

Ferðin í Landmannalaugar var farin í júní 1946.

Röskur hópur fjallagarpa tók þátt í könnunarleiðangri til að finna bestu leiðina frá Galtalæk að Landmannalaugum. Gekk bílnum vel að Frostastaðahálsi en þar var hann skilinn eftir, menn gengu inn í Laugar og gistu þar um nóttina. Morguninn eftir var svo farið að lagfæra veginn yfir Frostastaðahálsinn eftir gömlu hestaslóðinni. Var bílnum síðan ekið alla leið inn í Landmannalaugar þrátt fyrir að mikið vatn væri í kvíslinni. Taldi Guðmundur það mikilvægt: “Yfir kvíslina verðum við að fara því glæpnum verður stolið frá okkur ef við ökum ekki alla leið heim að Laugakofa.”[3] Var tekin mynd, 16. júní 1946 af fyrsta bílnum í Landmannalaugum. Var þetta mikill áfangi í sögu ferðamennsku á Íslandi og opnaði möguleika til útivistar og ferðalaga sem ekki höfðu verið áður.

Frá Landmannalaugum í Skaftártungu

Næst var farið frá Landmannalaugum og austur í Skaftártungu. Þegar leið fram í ágúst var allt tilbúið og ákveðið að reyna að keyra alla leið austur. Fleiri höfðu heyrt af hugmyndum Guðmundar Sveinssonar og voru bílarnir orðnir fjórir þegar lagt var af stað: Guðmundur á einum, Bergur Lárusson á öðrum, fóru þeir upp frá Reykjavík, og að austan komu á móti þeim Gísli Sigurðsson á Búlandi og Jón Björnsson á Klaustri. Að mestu leyti var fylgt gömlu vörðuðu leiðinni sem menn höfðu farið ríðandi eða gangandi í margar aldir en lýsingin á leiðinni frá Landmannalaugum er í mjög grófum dráttum á þessa leið: Farið var frá Landmannalaugum í gegnum skarð sem kallað hefur verið Rauðarárstígur, inn að Kýlingavatni. Við Kirkjufellsós fór Bergur að Illagili og Guðmundur gömlu hestaleiðina. Töldu þeir báðar leiðir færar en ákváðu að fara upp Illagil. Í Illagili voru för eftir jeppa sem höfðu reynt að fara þessa leið en gefist upp. Ók Bergur bílnum upp gilið en Guðmundur notaði spilið til að draga sinn bíl upp. Greiðlega keyrðu menn inn Jökuldalina og gistu í Dalakofanum. Daginn eftir reyndu þeir að fara Klappargilið en það var svo stórgrýtt að þeir urðu frá að hverfa og fara upp brekkuna hjá Dalakofanum, norður fyrir Grænalón og Grænafjall og koma síðan aftur inn á fjallabaksleiðina hjá Skuggafjöllum. Þar tóku sunnanmenn óþarfa krók.

Í stað þess að taka stefnuna beint á Eldgjá hjá Herðubreiðarhálsi var haldið á svokallaða Álftavatnsgötu, yfir Stóragil og Axlir að Lambaskarðshólum. Þar kom í ljós að austanmenn voru komnir framhjá, höfðu haldið inn í Eldgjá enda töldu þeir að síst verra væri að aka niður í gjána frá Herðubreiðarhálsi en yfir Stóragil. Var nú greið leið að Búlandi, en þeir leiðangursmenn sem komu að austan höfðu unnið að lagfæringu hennar um leið og þeir fóru hana. Að Búlandi komu allir leiðangursmenn að áliðnum degi. Voru þeir að vonum ánægðir með dagsverkið; búnir að sanna að Fjallabaksleið nyrðri væri fær bílum. Og þeim þótti leiðin bara alls ekki svo slæm:

 Sem dæmi um það hversu greiðfær leiðin er, sagði Guðmundur, má geta þess að við eyddum röskum 100 lítrum af bensíni á hvorn bíl á milli bæja. En vegalengdin er talin röskir 100 kílómetrar.[4]

Og sýnist nú sitt hverjum um það hversu fær leið þetta hefur verið og bensíneyðslan lítil. Guðmundur telur að það mætti lagfæra veginn með jarðýtu og byggja þrjár brýr og þá verði þetta fært flestum.

Hlaupvatn frá Kötlu tekur brýrnar

Og þar kom að því að Katla sýndi tennurnar. Sumarið 1955 kom hlaupvatn svo mikið niður Mýrdalssand að af tók brýrnar á Skálm í Álftaveri og Múlakvísl á Mýrdalssandi. Þar með voru sveitirnar austan sands ekki í vegasambandi lengur. Þótti nú ástæða til að bæta veginn að Fjallabaki gera hann að einhvers konar neyðarleið. Brandur í Vík var fenginn til að sjá um þetta verk og hafði með sér nokkra kunnuga menn úr Skaftártungu til að velja vegarstæðið. Fór Brandur með vinnuflokk, ásamt jarðýtu, til þess að laga leiðina og eftir það var hún slarkfær öllum tveggja drifa bílum. Brýr voru svo byggðar á Jökulkvísl í Landmannalaugum 1966 og Syðri Ófæru 1971 en þær voru oft erfiðar yfirferðar. Seinna var svo syðri leiðin um Fjallabak einnig gerð bílfær. Hafa þessi vegir síðan verið lagaðir margoft en þeir eru þó aðeins færir jeppum, hluta úr ári. [5]

Fegurð að fjallabaki og samgönguleiðir

Fjallabaksleiðirnar eru báðar með afbrigðum fallegar en líka mikilvægar fyrir samgöngur á milli landshluta ef eitthvað  kemur fyrir þjóðveginn á Mýrdalssandi.

[1] Björgvin Salómonsson. 1997. “Hálf öld liðin frá fyrstu bílferð um Fjallabaksveg. Dynskógar 6. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. S. 293-294

[2] Björgvin Salómonsson. 1997. “Hálf öld liðin frá fyrstu bílferð um Fjallabaksveg. Dynskógar 6. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. S. 296

[3] Björgvin Salómonsson. 1997. “Hálf öld liðin frá fyrstu bílferð um Fjallabaksveg. Dynskógar 6. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. S. 296

[4] Morgnblaðið 15. ágúst 1946 „Í bílum Fjallabaksleið austur í Skaftártungu. Frásögn Guðmundar Sveinssonar.“   s. 2

[5] Sigþór Sigurðsson. 1997 Vatna-Brandur. Dynskógar 6. Vestur -Skaftafellssýsla, Vík. S. 216-221

Share it on your social network:

Or you can just copy and share this url
Related Posts