leita

Kötlugos

Í lok júlí 2017, þegar verið var að vinna þennan kafla á vefnum, kom enn ein gusan undan Mýrdalsjökli í Múlakvísl. Hlaupið var ekki mjög stórt en vatnsmagnið var verulegt við nýju Múlakvíslarbrúna. Vakt var við ána um tíma og þurfti að styrkja varnargarða. Hlaupið sem kom 2011 er nú talið hafa verið vegna eldgoss undir jöklinum.

Katla er mjög virk

Katla er mjög virk eldstöð undir Mýrdalsjökli. Gosið hefur 24 sinnum frá landnámi ef með eru talin gos undir jökli sem hafa valdið hlaupum í ám en ekki komið upp úr jöklinum sjálfum. Gosin eru hættuleg vegna jökulhlaupa og öskufalls. Flest jökulhlaupin hafa farið niður Mýrdalssand en færri hafa farið niður Sólheimasand og Skógasand eða vestur í átt að Þórsmörk og niður Markarfljótsaura.  Engu er þó að treysta hvað gerist næst og því er Mýrdalsjökull vaktaður með vefmyndavélum og jarðskjálftmælum. Jarðskjálftar eru mjög algengir í Mýrdalsjökli og hafa verið mjög vel kortlagðir undanfarna áratugi.

Á vef Almannavarna ríkisins eru miklar upplýsingar um Kötlugos og eru þær uppfærðar reglulega: Vefur Almannavarna ríkisins

Eldstöðvakerfi Kötlu er um 90 km langt og liggur frá Eyjafjallajökli, undir Mýrdalsjöklul og norð-austur að Vatnajökli. Eldgjá og Kambagígar eru hluti þessarar sprungu sem kennd er við Kötlu. Megineldstöðin, Kötluaskjan sjálf er undir Mýrdalsjökli, um 30-35 km í þvermál.

Yfirlit Kötlugosa síðustu fjórar aldir má sjá á mynd og þar má sjá hversu reglulega Katla hefur gosið. Tvö gos á öld og sum hafa varað allt upp undir 120 daga eins og gosið 1755.

Drumbabót, skógur sem hvarf í hamfarahlaupi

Kötlugos sem orsakaði hamfarahlaup í vesturátt árið 822 hefur farið niður hjá Þórsmörk  í átt að Fljótshlíðinni og runnið til sjávar um Markarfljót. Rannsakaðar hafa verið leifar af skógi sem er undir sandinum rétt við bæinn Þverá í Fljótshlíð, um 9 km frá Hvolsvelli. Drumbarnir eru allir eins og klippti í sundur og sýnir aldursgreining á trjánum að þau hafi skemmst öll á sama tíma.

Katla eyðir byggð og landi

Mýrdalssandur er afrakstur Kötluhlaupa. Mörgum sinnum hafa flóð sópað bæjum og grónu landi á haf út, allt víkur fyrir ofurkrafti hlaupsins. Eldri hraun hafa horfið í sandinn. Mikil byggð á Mýrdalssandi hefur eyðst í þessum hlaupum. Vitað er að byggð sem hét Höfðahverfi var á milli Hjörleifshöfða og Hafurseyjar. Hjörleifshöfði var sennilega við sjó fram yfir 1300. Talið er að fjörður hafi verið vestan Hjörleifshöfða þegar Hjörleifur Hróðmarsson kom þar að.[1] Dynskógahverfi var norðvestan við Álftaver og Lágeyjarhverfi vestan og sunnan við Álftaverið. Örnefni eins og Laufskálar og Dynskógar benda til að landið hafi verið vel gróið. Klaustri var valinn staður í Þykkvabæ í Álftaveri rétt eftir miðja tólftu öld og bendir það einnig til að þarna hafi verið búsældarlegt og blómleg byggð því klaustur voru helst reist þar sem von var á góðum tekjum. Sumarið 2017 og 2018 var unnið við að grafa upp bæinn Arfabót sem er vestan Álftaversins. Fornleifauppgröfturinn styrkir þá trú manna að býlin hafi verið um 25 sem nú eru eydd og sum þeirra stórbýli. Hér er stutt frétt af Stöð 2 frá því 20. júlí 2018

En það er ekki allt slæmt við framburðinn úr Kötlu. Við hvert hlaup bætist við sandinn og stækkar hann verulega. Mikið bættist við landið fyrir sunnan Hjörleifshöfða haustið 1918 og var það kallað Kötlutangi og var allt að 4 km en er nú um 2,5 km. Einnig bættist við strandlengjuna hjá Vík í Mýrdal en nú hefur sjórinn étið það af aftur og hafa Víkurbúar gert varnargarða til að hindra ágang sjávar við þorpið.

Tvær slæmar sögur og ein góð

Kötlugos eru hættuleg og eyða byggð og gróðri en fáar sögur eru af því að fólk hafi farist. Hér eru þó tvær slíkar sögur þar sem sagt er frá að elding hafi dregið fólk til dauða og í hinni eru það menn sem verða fyrir flóðgusu eftir að gosi lýkur. Þriðja sagan er þó saga af seiglu Skaftfellinga.

Eldingar drepa fólk

Í gosinu 1755 lést hreppstjórinn í Svínadal í Skaftártungu og ung vinnukona á bænum.

Dauða þeirra tveggja manna, sem fórust í eldi þessum, bar að með þeim hætti, að annar þeirra, sem var heiðvirður bóndi, datt niður dauður, um leið og hann kom út úr bæjardyrum sínum, samtímis og eitt eldleiftrið gekk yfir. Engin verksummerki sáust á fötum hans, en þegar hann var færður úr fötum, var húð og hold brennt inn að beini á hægri hlið hans, og einnig skyrta hans og brjóstdúkur, sem sennilega hefur verið úr líni, en ytri fötin, sem voru úr ull, voru ósnert af eldinum. Hin persónan sem fórst, var vinnustúlka hans, sem ætlaði að hjálpa honum til að bjarga einhverju af skepnunum. Eldinum sló niður í hana á sömu stund og stað. Hún dó ekki samstundis, heldur lifði hún nokkra daga við ægileg harmkvæli.[2]

Áður en fólkið varð fyrir eldingunni höfðu nokkrir hestar drepist vegna eldingar. Þetta Kötlugos stóð í marga mánuði. Öskufall var gífurlegt og veturinn harður. Féll mikið af fé, fólk flosnaði upp af jörðum sínum þar eystra og fór á vergang.

Flóðgusa drepur sýslumann

Eftir gosið 1823 varð dauðaslys í Landbrotsá í Álftaveri þar sem sýslumaður Skaftfellinga ásamt tveimur mönnum varð fyrir flóðgusu í ánni nærri tveimur mánuðum eftir að gosi lauk. Þeir létust allir. Er líklegt að flóðgusan hafi verið afleiðing Kötlugossins.

Kærustuna sótti hann í miðju Kötlugosi

Katla gaus 1860 og er til ein skemmtileg saga af því hvernig ungur Álftveringur lét Kötlu ekki tefja sig við að ná í konuefnið. Bóndasonurinn í Hraungerði, Brynjólfur Eiríksson, ætlaði að koma heim með kærustuna, Málfríði Ögmundsdóttur frá Reynisholti í Mýrdal og hefja búskap vorið 1860. Þá skall á Kötlugos og var Mýrdalssandur algjörlega ófær. Mýrdælingar tóku þá það ráð að manna áttræring og sigla með unga fólkið austur í Álftaver. Gekk það vel og komust þeir heim á sama sólarhring. Unga parið gekk með eigur sínar átta kílómetra leið frá sjónum að Hraungerði. Farnaðist þeim vel í Álftaveri og eru forfeður margra sem þar búa í dag. [3]

Kötlugylling

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru um landið 1756 og vildu þá skoða Kötlugjá. Var þetta aðeins ári eftir eitt stærsta Kötlugosið sem var 1955. Ráðlögðu Mýrdælingar þeim eindregið frá því að nálgast Kötlu en þeir félagar létu það ekkert á sig fá og fóru austan við Mýrdalsjökul að Kötlugjá. Eggert orti þetta kvæði þar sem hann gerir lítið úr hræðslu manna og hyllir Kötlu:

Hvört er það satt, sem heyrum vér,

hafi landvættir ætlað sér

Mýrdælir mót oss sjá,

svo komumst vér ekki‘ í Kötlugja´

og kunnum hennar ástum að ná

 

Álfar, forynjur, eða tröll

oss gjörðu hvörgi ferða-spjöll,

fara mun allt-eins enn,

hvörs sem vænast heimskir menn;

hafi þeir steyt fýrir þvættínginn.

 

Katla er mest í meya-krans,

mesta viðundr þessa lands,

blossandi blóm-rós;

vitringar heimsins sýngja‘ henni hrós. [4]

 

Skýringar við myndir: 

Nöfn systkinanna á myndinni eru: Brynjólfur, Sigurbjörg, Eggert, Guðmunda, Auðunn, Kristín, Gottsveinn. Brynjólfur bjó á Þykkvabæjarklaustri og Eggert í Hraungerði og búa afkomendur þeirra á þessum bæjum ennþá.

[1] Helgi Björnsson. 2009. Jöklar á Íslandi. Opna, Rv. s. 135

[2] Eggert Ólafsson. 1974. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757, 2. bindi. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Rv. s. 93

[3] Júlíus Jónsson Norðurhjáleigu. 1997. “Örlagasaga Álftavers.” Ársrit Útivistar nr. 23. S. 10

[4] Eggert Ólafsson. 1832. Kvæði. Khn s. 200 (Ljósprentað árið 1974 af Prentveri OddsBjörnssonar á Akureyri). Vísurnar sem hér eru birtar eru númer 1, 6 og 8 en alls er kvæðið 21 erindi.

Share it on your social network:

Or you can just copy and share this url
Related Posts