leita

Gjálpargosið 1996

Gjálpargosið hófst 30. september 1996 og jökulhlaupið kom fram að morgni 4. nóvember 1996.

Grímsvötn

Grímsvötn í Vatnajökli eru virkasta eldstöð á Íslandi og mjög öflugt jarðhitasvæði. Talið er að um 60 gos hafi verið í Grímsvötnum frá því um 1200.  Skeiðarárhlaupin sem ruddu um öllu sem fyrir var koma úr Grímsvötnum en til eru heimildir um 40 hlaup á Skeiðarársandi frá því um 1400. Það var ekki fyrr en 1974 sem Íslendingar treystu sér til að búa til nógu langa brú til taka við því vatnsmagni sem alla jafna er í  Skeiðarárhlaupum. Nýtt virknitímabil virðist hafið í Vatnajökli eftir hið rólega tímabil 1938-1996.  Frá 1996 hafa orðið fjögur eldgos:  Gjálpargosið 1996, Grímsvatnagos í desember 1998 og nóvember 2004, og stórt Grímsvatnagos í maí 2011.

Gjálpargosið 1996

Gjálpargosið hófst 30. september 1996. Það sást til gossins frá veginum á Skeiðarársandi, tignarlegir gufubólstrar, blandaðir kolsvartri ösku, stigu til himins. Aska féll þó aðeins á jökulinn en hvergi í byggð. Fréttamenn komu hvaðanæva að úr heiminum til að fylgjast með og ná myndum af því þegar vatnið kæmi niður því það var ljóst að gos undir jökli myndi bræða milljónir  rúmmetra af vatni. Gosinu lauk 13. október en ekkert bólaði á hlaupvatni. Lögreglan vaktaði umferð um þjóðveginn því búist var við hlaupi á hverri stundu. Þannig liðu nokkrar vikur. Um það leyti sem síðasti erlendi fréttamaðurinn var farinn úr landi kom hlaupið niður.

Hlaupið kom fimm vikum síðar

Vatnið geystist fram undan jökli og niður til sjávar að að morgni 4. nóvember 1996 og var það mun sneggra en menn bjuggust við. Krafturinn var gífurlegur og vatnsmagnið engu líkt. Stórir ísjakar brotnuðu úr jöklinum og hentust með flóðinu langt suður á Skeiðarásand. Ströndin færðist fram um 900 metra vegna aurburðar. Brúin á Sandgígjukvísl flaut í burtu og var eins og undin tuska neðar á sandinum,  Skeiðarárbrýrnar skemmdust allnokkuð og um 15 km af þjóðveginum skolaði í burtu. Tjónið var gífurlegt og strax var hafist handa við að byggja upp aftur til að opna hringveginn. Byggð var bráðabirgðabrú yfir Sandgígjukvísl sem tekin var í notkun nokkrum dögum eftir gos. Mikil mildi var að það var enginn á ferð á sandinum. Lokað hafði verið fyrir umferð á nóttunni og lögreglumaður var á ferð til að opna rétt áður en vatnið kom yfir sandinn, en hann slapp með skrekkinn.

Allir vildu sjá ísjakana

Gosið vakti mikla athygli og fjöldi fréttamanna snéri aftur og myndaði hamfarasvæðið og Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja. Stöðugur straumur fólks var austur á Skeiðarársand og þar var margt ótrúlegt að sjá. Myndir segja meira en mörg orð um hvernig kraftar náttúrunnar hentu ísjökum á stærð við fjögurra íbúða hús marga kílómetra. Ísstálið við útfallið var tugi metra hátt. Jakarnir bráðnuðu hratt og hætta var á að mynduðust sandbleytur. Fólk gekk og keyrði um allan sandinn og margir voru hræddir um slys en allt gekk þetta slysalaust. Þeir sem ætluðu að skoða herlegheitin í sumarfríinu urðu fyrir miklum vonbrigðum því í júní var hver einasti jaki horfinn, bráðnaður eða sokkinn í sandinn, ekkert að sjá nema svartan sand og ísstálið við upptökin.

Hver var Gjálp?

Gosið  í Grímsvötnum ber nafn Gjálpar Geirröðardóttur sem var tröllkona í norrænni goðafræði. Þór vildi heimsækja föður hennar en Gjálp gerði það sem hún gat til að hindra för Þórs. Þegar Þór var rétt ókominn til Geirröðar og fór upp eftir gilinum þar sem áin Vimur rennur jókst skyndilega vatnsflaumurinn svo Þór komst varla áfram. Leit Þór upp og sá þar hvar Gjálp stóð klofvega yfir gilinu og mígur. Þór tók stóran stein og kastaði í áttina til hennar og hitt svo árvöxturinn stöðvaðist. Komst Þór svo til Geirröðar.

 

Helgi Björnsson. 2009. Jöklar á Íslandi. Opna, Reykjavík. S. 228-274

Jarðfræðivefurinn. Hér má sjá 2 mínútna myndband sem sýnir vel hvernig gosið gekk fyrir sig.

Snorri Sturluson. Snorra-Edda. Skáldskaparmál. För Þórs til Geirröðargarða.

 

 

 

Share it on your social network:

Or you can just copy and share this url
Related Posts